fbpx
Bleikt

Þorbjörg segir Lífsstíl hafa brotið á sér – Eigandi stöðvarinnar ekki á sama máli: „Þetta er einfaldlega uppspuni og helber lygi“

Ritstjórn Bleikt
Mánudaginn 9. apríl 2018 21:00

Þorbjörg Ósk Samúelsdóttir telur að Lífsstíll í Reykjanesbæ hafi brotið á sér þegar hún gerði samning við þá um líkamsræktarkort á síðasta ári.

„Þegar ég keypti kortið síðastliðið sumar spurði ég sérstaklega að því hvort ekki væru sérkjör fyrir öryrkja og var mér tjáð að svo væri alls ekki og gerði ég því venjulegan samning við þá,“ segir Þorbjörg Ósk.

Vildi segja samningnum upp

Síðar komst Þorbjörg að því að fyrirtækið gerði víst sérsamninga við öryrkja. Hún vildi því segja samningnum upp strax á þeim grundvelli að henni hefðu verið gefnar rangar upplýsingar.

„Ég sendi ítarlegt bréf til eiganda Lífsstíls og það eina sem hann skrifaði mér til baka var: „Það er þriggja mánaða uppsagnarfrestur á samningnum.“

Þorbjörg varð skiljanlega mjög ósátt og skrifaði eigandanum til baka að hún vildi fá að hætta strax en fékk ekkert svar.

„Ég sendi honum þetta í september í fyrra. Í október var mánaðargjaldið tekið út af kortinu mínu. Svo var ekkert tekið í nóvember og desember og hélt ég því að málinu væri lokið og gat alveg sætt mig við októbergreiðsluna.“

Það var svo í febrúar og mars á þessu ári sem fyrirtækið hóf, samkvæmt Þorbjörgu, að taka aftur út af reikningi hennar og brá hún því aftur á það ráð að senda eigandanum aftur póst.

Eigandinn svarar ekki ítrekuðum pósti Þorbjargar

„Hann svarar mér ekki heldur og ég ítreka póstinn nokkru síðar og krefst þess að fá endurgreitt fyrir þessa mánuði þar sem þeir hafi tekið út af reikningnum í leyfisleysi ásamt því að uppsagnartíminn væri löngu útrunninn. Hann svarar mér ekki.“

Eftir þetta hafði Þorbjörg samband við Neytendasamtökin sem greindu henni frá því að þetta væri ekki í lagi. Báðu samtökin hana að senda eigandanum aftur póst þar sem ítarlega væri greint frá allri sögunni ásamt því að senda Neytendasamtökunum afrit líka.

„Ég átti svo að gefa honum viku til þess að svara sem hann gerði að sjálfsögðu ekki. Ég ákvað þá að ég nennti ekki að standa lengur í þessu veseni og fer í bankann til þess að láta loka fyrir aðgang Lífsstíls að reikningum mínum. Þar var mér greint frá því að ekki sé hægt að sjá neinar kröfur eða aðgang Lífsstíls að reikningnum mínum en til öryggis er bara best að loka reikningnum og stofna nýjan. Sem ég geri.“

Tveimur dögum síðar segist Þorbjörg hafa fengið símtal frá bankanum sínum sem spurði hvers vegna hún væri ekki búin að greiða kröfuna frá Lífsstíl þennan mánuðinn.

„Ég var eitt stórt spurningarmerki og greindi henni frá því að reikningnum hefði verið lokað einmitt út af því að Lífsstíll hafi verið að taka út af reikningnum mínum í leyfisleysi. En konan í bankanum segir mér að Lífsstíll sé með aðgang og kröfu á nýja reikninginn minn. Ég get ekki skilið hvernig fyrirtæki getur fengið aðgang að reikningi sem er ekki tilgreindur í samningi. Reikningurinn er meira að segja það nýr að ég er ekki einu sinni komin með debetkortið í hendurnar.“

Þorbjörg segir að konan í bankanum hefði sagt henni að hún gæti ekki séð hvaða starfsmaður hefði breytt aðganginum en gat þó greint frá því að það hafi verið gert í Keflavík.

„Hún var nú mjög skilningsrík og lokaði öllu sem hægt var að loka svo þetta fyrirtæki kæmist ekki aftur í þessar fáu krónur sem ég fæ í örorkulífeyri. Ég er ógeðslega svekkt, reið og finnst á mér brotið.“

Eigandi Lífsstíls segir Þorbjörgu fara með rangt mál

DV hafði samband við Vikar Sigurjónsson eiganda Lífsstíls sem kannaðist við málið.

„Þessi dama er alls ekki að fara með rétt mál. Svona samningar eru árskort og er verðinu deilt niður á 12 mánuði. Þannig að ef einhver kaupir árskort og nennir svo ekki að mæta í ræktina, þá getur hann ekki bara hringt og fengið endurgreitt. Það er mjög skýrt á þessum samningum að það sé þriggja mánaða uppsagnarfrestur og að það sé 12 mánaða binditími. Það er ekki í smáaletrinu og það kemur fram fjórum sinnum á samningnum,“ segir Vikar í samtali við blaðamann.

Bankinn gengur ekki á eftir ógreiddum kröfum

„Hún er að fara með rangt mál. Ekki bara í einu tilfelli og ekki bara tveimur. Mér þykir ægilega leiðinlegt þegar fólk er að nota fjölmiðilinn Facebook til þess að fara með rangt mál. Það að hún hafi beðið um öryrkjasamning er ekki rétt en það stendur mjög skýrt á samningnum að það sé skóla og öryrkja afsláttur sem er 500 krónum ódýrari á mánuði. Það er einnig rangt að bankinn hafi verið að eltast við hana og að hún hafi þurft að loka einhverjum reikningum. Bankinn er aldrei að hafa uppi á fólki og eltast við einhverjar kröfur. Þrátt fyrir að það væri þægilegra fyrir mig þá er þetta bara eitthvað sem bankinn tekur ekki þátt í.“

Vikar segist hafa orðið málsins var um helgina þegar hann var staddur erlendis og að hann hafi sent Þorbjörgu skilaboð samstundis.

„Ég sendi henni póst á Facebook um að hún væri nú ekki alveg að fara með rétt mál og að mér þætti þetta leitt. Ég sagði henni að ég myndi kíkja á þetta mál þegar ég kæmi heim en hún hefur ekki séð sér tíma til þess að svara mér. Þó hefur hún verið að deila þessu hingað og þangað.“

Segir kröfu á nýjum reikningi Þorbjargar vera uppspuna

Aðspurður um hvernig krafan hafi geta færst sjálfkrafa yfir á nýjan reikning Þorbjargar segir Vikar að það sé einfaldlega uppspuni.

„Ég veit ekki alveg í hvaða gír hún er, í staðin fyrir að hringja bara eitt símtal og nota mannleg samskipti en þetta er einfaldlega uppspuni og helber lygi. Samningurinn er gerður á ákveðinn reikning og ef það er ekki peningur inni á þeim reikning þá er ekkert meira gert í því. Um leið og þú byrjar að ljúga þá ertu að eyðileggja málstaðinn þinn. Jú jú, þú færð meiri athygli á Facebook en þetta er bara helber lygi.“

Ritstjórn Bleikt
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Drengirnir eru fundnir

Ekki missa af

Bleikt
Í gær

6 góð ráð gegn meðgöngukláða

6 góð ráð gegn meðgöngukláða
Bleikt
Í gær

Nú getur þú kúkað glimmeri – En við mælum ekki með því

Nú getur þú kúkað glimmeri – En við mælum ekki með því
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Ósáttur faðir hefur fengið nóg og húðskammar dóttur sína – Myndbandið sem hefur vakið heimsathygli

Ósáttur faðir hefur fengið nóg og húðskammar dóttur sína – Myndbandið sem hefur vakið heimsathygli
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Tobba og Kalli telja niður í settan dag – Grenja?

Tobba og Kalli telja niður í settan dag – Grenja?