fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Jólahugvekja Höllu Tómasdóttur vísar í íslensk dægurlög –

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 20. desember 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason ásamt börnum þeirra, Tómasi Bjarti og Auði Ínu.

Halla Tómasdóttir rekstarhagfræðingur og fyrrum forsetaframbjóðandi skrifaði jólahugvekju fyrir fullorðna þar sem hún vísar til íslenskra dægurlaga sem eru í uppáhaldi hjá henni.

Bréfið birtir Halla á heimasíðu sinni.

Þegar börnin mín voru ung, þá voru þau dugleg að skrifa jólasveinunum bréf og gefa þeim ýmiskonar góðgæti. Við foreldrarnir skemmtum okkur oft vel við að svara þeim. Við skrifuðum þeim bréf með vinstri hendi, bitum í kertin sem þau skildu eftir og borðuðum veigarnar. Oft náðum við að koma mikilvægum uppeldislexíum að í þessum bréfum, sem virkuðu, oft með ólíkindum vel.

Þegar börnin stálpuðust og trúin á jólasveinana dvínaði, þá saknaði ég þessara bréfaskrifta og hóf að skrifa þeim góð ráð frá mömmu á aðventunni. Þetta hefur fallið í ágætan jarðveg, svo ég ákvað nýlega að deila nokkrum þeirra í jólahugvekju með fullorðnum. Ég “poppaði” þau reyndar aðeins upp með því að vísa í íslensk dægurlög sem eru í sérlegu uppáhaldi hjá mér.

Ég byrja að sjálfsögðu á Reiðmanni Vindanna, sjálfum Helga Björns, sem söng á sínum tíma með SS Sól lagið Vertu þú sjálfur. Ég hef nær alla tíð haft það beint eða óbeint að atvinnu að efla leiðtoga og liðsheildir til góðra verka. Ef það er eitthvað eitt sem ég hef lært á þeirri vegferð, þá er það að við getum fyrst orðið öflugir leiðtogar og liðsmenn þegar við höfum eflt okkar eigin sjálfsþekkingu og öðlast hugrekki til að vera einlæglega við sjálf.

Við Íslendingar fengum nýlega nýjan forsætisráðherra. Ég hef heyrt marga hrósa Katrínu og lýsa yfir trú sinni og trausti á henni. En ég hef líka heyrt suma segja hluti eins og “Hún þarf að læra að klæða sig í takt við nýtt hlutverk” eða “Hún virkar of stelpuleg”. Ég þekki slík ráð sjálf, fékk ýmis óumbeðin ráð þegar ég bauð mig fram til forseta. Einn ágætur almannatengill hringdi t.d. í mig og sagði mér að ég yrði að vera brún, það væri svo illa talað um konur sem væru fölar. Þeir sem svona segja vilja líklega vel, og hafa mögulega sitthvað til síns máls, en við Katrínu og alla aðra vil ég engu að síður segja eins og Helgi Björns, Vertu þú sjálfur. Við getum eingöngu orðið sannir leiðtogar og besta útgáfan af okkur sjálfum með því að vera við sjálf, aldrei með því að leika aðra.

Helgi söng líka Gerðu það sem þú vilt. Ég er sannfærð um að hvert okkar býr yfir hæfileikum og eiginleikum sem eru einstakir og það er hlutverk okkar í lífinu að finna þeim réttan farveg. Það er sannarlega líka hlutverk okkar að hjálpa börnum okkar að vera þau sjálf og finna sér réttu hillu. Það er ekkihlutverk okkar að steypa afkomendur okkar í sama mót og alla aðra eða í okkar eigin mynd.

Stefán Hilmarsson söng Hvar er draumurinn og lýsti því hversu dapurlegt það er þegar maður tapar sjónum á draumum sínum, og hversu mikilvægt það er að leita undir hverjum steini til að öðlast lífið sem við þráum, gefast aldrei upp. Stebbi söng líka um Auði, sem þótti undarleg, og það þóttum við svo sannarlega, konurnar sem stofnuðum Auði Capital fyrir rúmum tíu árum síðan, á því herrans ári 2007. Við vorum margar aðdáendur Stefáns og slógum eins og Bibba á Brávallagötunni gjarnan tveimur hlutum saman og sungum iðulega Hvar er Auðurinn. Það var ekki bara til gamans gert, heldur fólst í þessari útfærslu okkar sú hugsun að Auður (og lífið yfirhöfuð ) snérist um fleira en fjárhagslega arðsemi. Við minntum okkur meðal annars á það með því að hengja upp í anddyri fyrirtækisins myndir af börnum okkar – við kölluðum þann vegg – hinn raunverulega Auð.

Fátt hef ég gert í lífinu sem mér finnst merkilegra eða mikilvægara en að eignast og ala upp börnin mín, því eins og Björgvin Halldórs söng Hvers virði er allt heimsins prjál, ef það er enginn hér?

Ég bjó í tíu ár í Bandaríkjunum og oft lögðum við Íslendingarnir sem þar bjuggum á okkur löng ferðalög til að mæta á Þorrablót Íslendinga og oftar en einu sinni sá sjálfur Bo Halldórs þar um að skemmta okkur og skapa með okkur heimþrá. Lag hans, Vetrarsól, hafði áhrif á ákvörðun mína um að snúa aftur heim. Vinkonur mínar komu í heimsókn, með geisladisk Bo í farteskinu. Ég hafði þá nýlega fengið atvinnutilboð frá Íslandi en laglínan Hvers virði er allt heimsins prjál ef þú átt engan vin, og krefjandi augnaráð vinkvenna minna gerði líklega útslagið um að ég tók af skarið og snéri heim.

Þegar hér er komið við sögu átta ég mig á því, að ég hef eingöngu vísað í vinsælar sönglínur karla og það get ég ekki verið þekkt fyrir því ég trúi því að viskan sé meiri þegar bæði kynin koma að málum.

Það er því við hæfi að ég vitni næst í mína uppáhaldssöngkonu, Sigríði Thorlacius, sem söng með hinum dásamlega Valdimar Líttu sérhvert sólarlag. Þar minna þau okkur á að njóta stundarinnar eins og hin hinsta væri, því að öðru göngum við ekki vísu. Öll þekkjum við missi og sorg af ýmsum toga og því er þessi annars fallegi árstími, jólahátíðin stundum tregablandinn. Haustið 2008, fáeinum vikum eftir að Ísland fór í gegnum sitt efnahagshrun og hrun á trausti og samfélagslegri sátt upplifði ég stærri missi. Pabbi, sem þá var rétt nýorðinn sjötugur greindist með krabbamein og féll frá viku síðar. Honum entist ekki ævin til að njóta þess sem hann ætlaði og átti skilið. Ég hef síðan reynt að leggja mig fram um að njóta lífsins núna, og taka því aldrei sem gefnu að ég fái allan þann tíma sem ég vil til að verða sú sem ég vil vera, til að gera það sem ég vil gera, og til að láta gott af mér leiða. Ég geri það ekki síst fyrir pabba.

Ég reyni að tileinka mér hugarfarið sem Magnús Kjartansson og Trúbrot fjalla um í laginu To be grateful. Ég er þakklát fyrir að vera á lífi og þegar mér tekst að nálgast lífið með hugarfari barnsins og með þakklæti fyrir litlu hlutina, þá er ég hamingjusömust. Og þegar á reynir, og líka þegar mér líður vel, þá hugleiði ég og allt verður betra.

Ég hef jafnframt áttað mig á því að Ellý Vilhjálms hafði rétt fyrir sér þegar hún söng á æskuárum mínum Vegir liggja til allra áttaenginn ræður för. Í vor var fótunum bókstaflega kippt undan mér. Ég margbraut á mér legginn og ökklann. Það þurfti 13 skrúfur og nagla, tvær stórar plötur og 44 spor til að tjasla mér saman. Þegar þetta gerðist var ég með allskonar plön, en það var augljóslega annað plan mínum plönum yfirsterkara, við ráðum nefnilega ekki alltaf för. Og þá skiptir seiglan sköpum. Mögulega er seiglan mikilvægasta lífshæfnin, og jafnframt sú hæfni sem við verðum að kenna börnum okkar betur en við erum að gera í dag. Í laginu Von, söng Gissur Páll um seigluna:

Við þekkjum flestöll fagran fugl

Sem flögrar um og geymir gull

Hann myrkri getur breytt í ljós

Til hjálpar hverjum hal og drós

Og ljós það lýsir langan veg

Um lönd og álfur víða fer

Og sannað hefur þúsundfalt

Að andans seigla sigrar allt

Það hefur ekki verið auðvelt að komast aftur á lappir, en ferlið hefur kennt mér margt og ég er betri og þolinmóðari manneskja eftir þessa lífsreynslu. Ég hef gert mér grein fyrir því að Ég er umvafin englum, því eins og Guðrún Gunnars syngur í því fallega lagi, þá erum við aldrei ein og þegar reynir á í lífinu þá finnum við sem betur fer flest svo vel hvað við eigum marga og góða að. Við slíka lífsreynslu kynnumst við líka bæði auðmýkt og æðruleysi og áttum okkur á því að við erum öll hluti af stórkostlegri heild sem veit iðulega betur en við sem gleymum okkur alltof oft í meðvitundarleysi og stressi hins daglega lífs.

Kæru vinir, þegar við Íslendingar syngjum saman texta Jóns Sigurðssonar Ég er kominn heim þá finnum við til og finnum líka til okkar. Lagið og textinn hefur öðlast einstakt gildi og sess í okkar samfélagi og fyllir okkur af bjartsýni og baráttugleði eins og fátt annað virðist gera. Þegar við syngjum það saman sýnum við styrk okkar, stolt og samtakamátt og okkur verða einhvern veginn allir vegir færir. Þannig er það nefnilega þegar við komum heim, verðum við sjálf, þá eru okkur allir vegir færir.

Já, tónlistin gefur lífinu sannarlega gildi og það má finna margar lífslexíur í dægurlögunum sem við elskum svo mörg. Ég gæti haldið lengi áfram en ég held ég hafi náð að snerta á þeim atriðum sem eru mér efst í huga nú í aðdraganda jóla. Lagalistann má finna á Spotify undir mínu nafni, ef einhverjir vilja rifja þessi einföldu ráð upp fyrir sig eða sína.

Lokatónninn kemur frá Ragnheiði Gröndal í lagi Magnúsar Þór Sigmundssonar Ást. Þau minna okkur á að við fæddumst til ljóssins og lífsins til þess að elska. Við finnum best fegurðina þegar við veljum ástina og kærleikann sem okkar leiðarljós því þegar við elskum, þá er ekkert í heiminum öllum, nema eilífðin, Guð og Við.

Gleðilega hátíð!

Fyrr í desember skrifaði Halla opinbert jólabréf til barna hennar, Tómasar Bjarts og Auðar Ínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni
Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?